27. maí, 2018

Um mig

Nafn mitt er Íris Guðrún Stefánsdóttir stofnandi og eigandi salarinnsyn.is. Markmiðið mitt með heimasíðunni er að fræða íslenskan almenning um áhrif og afleiðingar langvarandi  narsísískrar misnotkunar. Sérstök áhersla er lögð á uppkomin börn narsísískra foreldra.  

Saga mín er saga milljóna karla, kvenna og barna um allan heim. Ég var alin upp á narsísísku heimili en vissi ekki fremur en svo margir aðrir að til er eitthvað sem heitir narsísísk persónuleikaröskun. Fyrir nokkrum árum hnaut ég um orðið „narcissism” (sjálfsdýrkun) fyrir algera tilviljun og varð þá ekki aftur snúið. Ég kolféll fyrir fræðunum sem eru ekki aðeins áhugaverð heldur veittu mér ómældan styrk, og raunar nýja sýn á lífið. Síðan hef ég verið óþreytandi við að afla mér þekkingar á málefninu sem á endanum varð mér hvatning til að hjálpa öðrum sem eiga svipaða reynslu að baki.

Narsísískt uppeldi, þekking á narsissisma, ásamt ströngu bataferli hefur fært mér djúpan skilning á langvarandi og lúmskum áhrifum narsísískrar misnotkunar. Ég tel mjög mikilvægt að uppkomin börn narsísískra foreldra sem leita sér hjálpar mæti strax þessum skilningi því þau hafa oftast frá blautu barnsbeini upplifað skilningsleysi og skort á samúð. Í mínum huga eru slík börn ekki aðeins fórnarlömb heldur hetjur sem lifðu af mjög erfið  sálræn og tilfinningaleg skilyrði. Draumur minn er að sem flest þessara uppkomnu barna öðlist nauðsynlega þekkingu á narsissima (verði meðvituð) svo að þau viti að þau eru ekki ein, svo að þau geti hafið bataferil og ef best lætur losað sig alfarið við narsísíska arfinn og alla þá skömm sem honum fylgir. 

Menntun:

MA íslensk fræði HÍ:  Um er að ræða nám af hugvísindasviði þar sem áhersla er á manninn og mannlegt samfélag, húmanísk fræði, tungumál, bókmenntir, málvísindi, sálfræði, sögu, heimspeki o. fl.  

Kennsluréttindi  KHÍ 

Námskeið:

Understanding the narsissist web of deception, Mommie dearest og Gaslightning. Kennari: Christine Louis de Canonville. Christine er sálmeðferðarfræðingur með meiru og líklega með þeim fyrstu sem hefur haldið sérstök námskeið sem beina sjónum  fyrst og fremst að fórnarlömbum narsísískrar misnotkunar.

Meðal efnis sem var tekið fyrir á námskeiðunum: Hvað skilur að heilbrigðan narsissisma frá sjúklegum? Hvernig á að bera kennsl á sjúklega narsísíska hegðun í byrjun sambands? Af  hverju þurfa narsissistar fórnarlömb um leið og narsísíska athygli? Hver eru áhrif narsísísks ofbeldis á þolendur? Af hverju þurfa þerapistar/ráðgjafar að skilja narsísískt ofbeldi?

Caring for the brain after narcissistic abuse. Kennari: Dr. Rhonda Freeman. Námskeið um áhrif narsísískrar misnotkunar á heilastarfsemina. 

 

Fyrirvari: Allt sem kemur fram á heimasíðunni er einungis hugsað sem almenn fræðsla og er á engan hátt ætlað að koma í staðinn fyrir samtalsmeðferð eða ráðgjöf af neinu tagi. Allar læknisfræðilegar greiningar eru einungis á færi þar til bærra sérfræðinga.