15. júní, 2018

Ráðgjöf

Allir sem hafa upplifað langvarandi narsísíska misnotkun þurfa einhvern sem hlustar, skilur og viðurkennir (að á þeim var brotið) auk þess að fræðast um narsissisma. Fræðslan er raunar grundvallaratriði og fyrsta skref í átt að bata (vitsmunalegur bati). Uppkomin börn narsísískra foreldra þurfa til dæmis að skilja að foreldri þeirra var haldið persónuleikaröskun sem olli því að einlæg rödd þeirra týndist og sjálfsmyndin laskaðist. Þau þurfa einnig að fá vitneskju um að til eru orð og hugtök yfir narsísíska hegðun sem er gríðarlega valdeflandi út af fyrir sig. Hvað er til dæmis narsísísk reiði og hvernig er hún frá brugðin „venjulegri“ reiði? Hvað felst í því að vera uppspretta narsísískrar athygli? Hvað er narsísísk ærumeiðing? Svör við þessum spurningum setja lífssögu einstaklinga sem hafa þolað narsísíska misnotkun frá barnæsku í nýtt samhengi og færa þeim innsýn í eigið sálarlíf sem áður var þeim hulin (t. d. að þeir eru með ör á sálinni og að varnarviðbrögðin, sem hjálpuðu þeim að lifa af, vinna nú gegn þeim). 

Djúp, langvarandi áföll er ekki hægt að leysa fyrr en búið er að skilja þau að fullu og vinna sig í gegnum þau Pete Walker 

Annað mikilvægt skref hjá einstaklingum sem hafa alist upp á narsísískum heimilum er að syrgja narsísíska foreldrið með einhverjum hætti (tilfinningalegur bati). Þetta sorgarferli er nauðsynlegt hvort sem foreldrið er lífs eða liðið því verið er að syrgja foreldri sem var aldrei  tilfinningalega til staðar. Þriðja liðurinn í bataferli uppkominna barna narsísískra foreldra er að stöðva sinn þátt í „narsísíska dansinum” og taka fulla ábyrgð á eigin lífi. Á þessu stigi eiga þau að vera búin að gera sér ljóst að þau þurfa ekki að skilgreinast út frá hlutverkum sem þeim var úthlutað í æsku (t. d. að vera svarti sauðurinn eða ósýnilega barnið) og eiga nú óhrædd að geta leyft sér að, ekki bara lifa af, heldur blómstra.  

Ef við getum deilt sögu okkar með einhverjum sem bregst við með samúð og skilningi mun skömmin hverfa– Brené Brown

Langvarandi narsísísk misnotkun hefur víðtæk áhrif á hugarstarfsemi, tilfinningar, sál og líkama. Engar skyndilausnir eru í boði en með fræðslu, aðstoð og ötulli sjálfsvinnu verður til ný og heilbrigðari sjálfsvitund sem er grundvöllur þess að „fullorðnu börnin” geti með tímanum hætt að lifa í slíkri mótsögn, heilað sitt innra barn og fullorðnast

 

Ég er ekki með hefðbundna tíma í ráðgjöf en ef ef spurningar vakna er hægt að senda mér tölvupóst á iris@salarinnsyn.is. Einnig er hægt að hringja í mig í síma 8400623 milli 16-18 á miðvikudögum og fimmtudögum. Vinsamlegast pantið slíka símatíma með fyrirvara. 

Fyrirvari: Allt sem kemur fram á vefsíðunni er einungis hugsað sem almenn fræðsla og er á engan hátt ætlað að koma í staðinn fyrir samtalsmeðferð eða ráðgjöf af neinu tagi. Allar læknisfræðilegar greiningar eru einungis á færi þar til bærra sérfræðinga.