23. júlí, 2017

Lestrarþerapía

Complex PTSD: From surviving to thriving. Höfundur: Pete Walker. 

Athyglisverð bók um flókna áfallastreituröskun (complex post traumatic stress disorder, sk.st. CPTSD), tilurð hennar, orsakir og sérkenni. Röskunin er alvarlegri en áfallastreituröskun og er meðal einkenna sem oft er til staðar hjá uppkomnum börnum narsísískra foreldra. Walker hefur starfað sem þerapisti í áratugi og sérhæft sig í að hjálpa fullorðnu fólki með CPTSD sem er tilkomið vegna endurtekinna áfalla í bernsku. Hann nálgast málefnið af mikilli nærgætni og virðingu enda sjálfur alinn upp á vanvirku heimili og hefur glímt við CPTSD um langt skeið. Bókin byggir því á persónulegri upplifun höfundar, þekkingu og langri starfsreynslu. Í það heila tekið mjög áhugaverð bók sem fjallar um brýnt málefni og er vel þess virði að lesa.  

 

Nokkrir góðir punktar úr bókinni (birtir með góðfúslegu leyfi höfundar).

CPTSD myndast vegna ytri áhrifa og á stóran þátt í sálfræðilegum röskunum fullorðinna að mati Walkers. Einkennin sem fylgja CPTSD eru stundum ranglega talin tengjast persónugerð einstaklingsins í stað þess að líta á þau sem neyðaraðlögun að streituvaldandi aðstæðum og endurteknum áföllum. Oftast er CPTSD tengt líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi en Walker er sannfærður um að langvarandi munnlegt og tilfinningalegt ofbeldi geti eitt og sér einnig valdið því. Tilfinningaleg höfnun (sem veldur áfalli) á sér stað þegar barn hefur ekki aðgang að einum umönnunaraðila sem kemur til móts við þarfir þess eða verndar það gegn hættum. Ef enginn staðgengill er fyrir hendi (eldra systkini, ættingi, nágranni eða kennari) sem barnið getur leitað huggunnar hjá eða treyst getur það þróað með sér CPTSD.

„Nægilega gott uppeldi” (good enough parenting) felst meðal annars í því að foreldrar  styðja, hugga og vernda börn sín. Vanvirkir foreldrar bregðast hins vegar við þörfum barna sinna með reiði, fyrirlitningu og höfnun. Reiðin gerir börn óttaslegin og fyrirlitningin gerir þeim skömm til. Með tímanum veldur óttinn og skömmin (sem þau óafvitandi taka á sig) eyðileggjandi gagnrýni innra með þessum börnum og festir í sessi slaka sjálfsmynd. Barn upplifir mikla niðurlægingu sé því sýnd fyrirlitning  í stað mannlegrar gæsku á unga aldri og er of hjálparlaust til að mótmæla eða skilja óréttlætið sem það er beitt. Á endanum sannfærast þessi börn um um að þau séu gölluð og eigi ofsóknirnar skilið.

Nokkur einkenni CPTSD: tilfinningaleg endurlit (flashbacks), eitruð skömm (toxic shame), félagsfælni, lítil sjálfsvirðing, tengslaröskun, stöðvun í þroska, erfiðleikar í samböndum, sjálfsvígshugsanir, ofurviðkvæmi fyrir streituvaldandi aðstæðum, skapsveiflur, sterk höfnunartilfinning og einmanaleiki. 

Nokkur atriði sem hafa ekki þroskast eðlilega hjá einstaklingum með CPTSD: að vera í sátt við sjálfan sig, skýr sjálfsmynd (hver þú ert), sjálfssamúð, sjálfsvernd, að geta slakað á, innri friður, sjálfsumhyggja, sjálfsvirðing, sjálfstraust, trú á að lífið sé gjöf, viljastyrkur og hvati.

Tilfinningaleg endurlit (flashbacks) og kveikjur (triggers). Ef áhrif bernskuáfalla eru óleyst og engin úrvinnsla hefur farið fram getur viðkomandi fundið fyrir „kveikjum“ sem leiða til tilfinningalegs endurlits. Þegar fólk læsist í endurliti er það að endurlifa þá tíma bernskunnar sem var erfiðast fyrir það tilfinningalega (til dæmis að vera refsað eða hafnað fyrir að tjá tilfinningar). Kveikjur eiga sér oft stað neðan marka meðvitaðrar skynjunar og því getur verið erfitt að greina orsakir þeirra. Engu að síður er mjög áríðandi fyrir fólk sem upplifir tíð endurlit að verða meðvitað um hvað veldur kveikjunum því það getur gert því kleift að forðast fólk, staði og aðstæður sem valda þeim.

Kveikjur geta verið fólk, staðir, hlutir, atburðir, andlitstjáning og samskiptahættir sem  minna á upprunalega áfallið þannig að viðkomandi upplifir skyndilega aftur sársaukafullar tilfinningar löngu liðins tíma. Dæmi um það getur verið þegar hann heimsækir foreldra sína, sér einhvern sem líkist ofbeldismanni úr bernsku, upplifir tiltekinn hátíðisdag sem olli vanlíðan eða heyrir einhvern nota orðalag eða (skammar) raddblæ foreldris. Aðrar algengar kveikjur eru að gera mistök, biðja um hjálp, tala fyrir framan hóp eða einfaldlega finna fyrir þreytu, einmanaleika, lasleika eða svengd. 

Ég gerði mér loks grein fyrir að munnlegt og tilfinningalegt ofbeldi hafði skaðað mig og marga af skjólstæðingum mínum mun meira en líkamlegt ofbeldi – Pete Walker

Tilfinningin um að vera lítill, veikburða og hjálparlaus er algengt merki um að vera í endurliti. Í sterku endurliti er skömmin svo mikil að viðkomandi vill helst ekki fara út út húsi eða sýna andlit sitt. Annað sem einkennir endurlit er þegar tilfinningaleg viðbrögð eru ekki í réttu hlutfalli við kveikjuna. Viðkomandi upplifir þá lítilsháttar truflun sem neyðartilvik eða lítilsháttar óréttlæti sem afskræmingu réttlætis. Dæmi um fyrra tilvikið er til dæmis að einstaklingur missir bók sem hann heldur á og reiðist sjálfum sér lengi á eftir en í hinu síðara er hann til reiður í marga klukkutíma því bílstjóri gleymdi að nota stefnuljós. Hann hefur stjórn á tilfinningum með því að leita í mat, sækja í athafnir sem dreifa athygli eða nota efni sem breyta hugarástandi.

Fólk bregst við hættu á fjóra mismunandi vegu sem Walker kallar 4f. Varnarviðbrögðin eru narsísísk (baráttu), áráttu/þráhyggju (flótti), hugrof (lömun) og meðvirkni (undirgefni). Ójafnvægi verður í 4f hjá börnum sem verða fyrir endurteknum áföllum því þau reyna ómeðvitað að mynda bjargræði gagnvart stöðugum hættum. Öll viðbrögðin geta komið í veg fyrir raunverulega nánd hjá þessum (uppkomnu) börnum því þau „triggera” þau inn í endurlit og varnarleysi bernskunnar. Viðbrögðin geta hins vegar verið allt frá því að vera valdeflandi og heilbrigð yfir í að verða sjálfseyðileggjandi (óheilbrigð) hegðun:

 • Baráttuviðbragð (fight response): frá ákveðni yfir í einelti
 • Flóttaviðbragð (flight response): frá dugnaði yfir í ofvirkni
 • Lömunarviðbragð (freeze response): frá kyrrsæld yfir í sinnuleysi
 • Meðvirkni (fawn response): frá hjálpsemi yfir í þrælslund

Baráttuviðbragð (narsískar varnir). Ef börn eru ofdekruð, þeim ekki sett nein mörk, eða þau fá að líkja eftir kúgun foreldra geta myndast óheilbrigðar narsísískar varnir. Slík manngerð álítur þá ranglega að hún sé fullkomin en að allir aðrir séu ófullkomnir. Narsissistar meðhöndla annað fólk sem hluta af sjálfum sér og koma jafnvel fram við „föngnu” meðvirknu persónuna sem þræl í sambandi sem einkennist af yfirráðum og undirgefni. Hér getur verið um að ræða sjarmerandi hrekkjusvínið sem þarf á blóraböggli að halda eða „reiða narsissistann” sem notar fólk eins og ruslakistur fyrir reiði sína. Reiði narsissistinn er hreinræktaður kúgari en slík kúgun getur ein og sér orsakað CPTSD.

 • Heilbrigð barátta: heilbrigð ákveðni, persónuleg mörk, hugrekki, forysta og harðfylgin sjálfsvörn ef nauðsyn krefur.
 • Óheibrigð barátta: viðkomandi er skapbráður, kúgari, einvaldur, andfélagslegur, stjórnsamur, krefst fullkomunar og telur sig rétthærri en aðra.
 • Tengslamyndun og öryggi: stjórna til að tengjast og reiðast til að vera öruggir.

Flóttaviðbragð fer af stað þegar einstaklingur bregst við skynjaðri hættu með því að flýja eða henda sér í of-virkni. Manngerðir sem ofnota flóttaviðbragð eru alltaf á hraðferð, halda sér upptekum til að forðast dýpri tengsl (við sjálfa sig og aðra). Hugsanir þeirra einkennast af þráhyggju, verk af áráttu, þeir kjósa fremur að gera en vera og eru oft vinnualkar eða adrenalínfíklar. Annríkið er oft svo mikið að þeir sjá ekki skóginn fyrir trjánum þannig að forgangsröðun brenglast. Þessir einstaklingar ættu að spyrja sjálfan sig: „Hvaða sársauka er ég að hlaupa frá núna?”.

 • Heilbrigður flótti: vinnusemi, hlé frá áhyggjum og streitu, hörfa ef hætta er of mikil.
 • Óheilbrigður flótti:  hræðslugirni, áhyggjur, flýtir, adrenalínfíkn. Viðkomandi er háður annríki, vill stjórna öllu í smæstu smáatriðum og er knúinn áfram af fullkomnunaráráttu. Hann getur orðið mjög upptekinn af sporti og frægu fólki. Í samræðum notar hann gáfulegar röksemdarfærslur og háleitar samræður til að forðast tilfinningar sínar.
 • Tengslamyndun og öryggi: verða að vera fullkomnir til að tengjast og fullkomnir til að vera öruggir.

Lömunarviðbragð fer af stað þegar einstaklingur gefst upp eða lamast inn í hugrof. Hið síðarnefnda hjálpar honum að aftengjast óbærilegri reynslu og verndar hann fyrir hættulegum félagslegum samskiptum. Hugrof geta birst með ýmsum hætti eins og óhóflegum svefni, dagdraumum og vafri um netið. Þessir einstaklingar forðast mannleg tengsl, sumir þeirra gefast alveg upp á að reyna að tengjast öðrum og einangrast mjög í kjölfarið. Oft hafa þeir enga jákvæða reynslu af nánum tengslum við aðra og eru ekki líklegir til þess að leita til sérfræðinga eftir hjálp. Ef það gerist hræðast þeir auðveldlega og hætta þá snarlega. Þeir eru einnig yfirleitt í mikilli afneitun gagnvart stöðu sinni og leiðast oft út í neyslu eiturlyfja.

 • Heilbrigð lömun: uppgjöf ef frekari átök eru gagnslaus, vera til staðar í núinu, vera viðbúinn og samtímis í jafnvægi, vera meðvitaður, friður.
 • Óheilbrigð lömun: hugrof, fela sig, einangrast, kjósa einveru, sjúklegur ótti við að afreka eitthvað.
 • Tengslamyndun og öryggi: ekki séns að ég tengist öðrum og ég fel mig til að vera öruggur!

Meðvirkni. Meðvirkur einstaklingur bregst við hættu með því að reyna að gera öðrum til geðs (t. d. vera hjálpsamur) til að halda friðinn. Hugsunin er sú að það sé öruggara að hlusta en tala, samþykkja heldur en að vera ósammála og veita aðstoð í stað þess að biðja um hjálp. Tilhugsunin ein um að segja „nei” getur komið endurliti af stað hjá þessum einstaklingum. Afstaðan endurspeglar þá trú að gjaldið fyrir inngöngu í sambönd sé að fyrirgera réttindum sínum, þörfum og persónulegum mörkum. Slík meðvirkni er komin til vegna áfalla. Um er að ræða sjálfsafneitun og sjálfshöfnun þar sem heilbrigt baráttuviðbragð (að berjast fyrir rétti sínum) er óvirkt og viðkomandi því útsettur fyrir misnotkun og höfnun.

 • Heilbrigð meðvirkni: viðkomandi hlustar og hjálpar öðrum jafn fyrirhafnarlaust og hann stendur vörð um eigin réttindi, þarfir og skoðanir.
 • Óheilbrigð meðvirkni: fleðulæti, þrælslund, tap á eigin sjálfi, þóknast öðrum (people pleaser), félagsleg fullkomnunarárátta, þolandi heimilisofbeldis.
 • Tengslamyndun og öryggi: samlagast öðrum til að tengjast.

Blöndun viðbragða. Flestir hafa eitt aðalviðbragð og annað auka (til dæmis blöndu af flótta/lömun, baráttu/lömun, og baráttu/meðvirkni).

Nokkur mikilvæg atriði í bataferli. Þegar við höfum öðlast skilning  á að óheilbrigt sjálf á sér rætur í uppeldinu er hægt að hefjast handa við að lagfæra skaðann. Þetta er grundvallaratriði vegna þess ef rétt virkni sjálfsins er ekki fyrir hendi vantar einnig „höfuðstöð“ til að taka heilbrigðar ákvarðanir. Mikilvægt er að tala út (verbal ventilation), þ. e. tala  á þann hátt að það losar um og leysir úr tilfinningalegum þjáningum. Einnig er bráðnauðsynlegt að syrgja til að endurtengjast tilfinningum sínum og  vinna sig út úr sársaukanum sem fylgir þeirri hræðilegu reynslu að hafa verið sviptur bernskunni.