7. apríl, 2019

Hvað er narsísíst ofbeldi?

Narsísíska foreldrið getur ekki brugðist við sálrænum eða tilfinningalegum þörfum barns síns – Christine Louis De Canonville 

Hvað er narsísíst ofbeldi?

Narsísískt ofbeldi vísar yfirleitt í ákveðið andlegt ofbeldi sem einstaklingur með narsísíska persónuleikaröskun (NPD) beitir fórnarlömb sín (merkingin í dag nær hins vegar yfir allar tegundir ofbeldis sem narsissistinn beitir). Ofbeldið getur verið bæði dulið og ódulið. Ódulið ofbeldi getur til dæmis verið beinar ógnanir, öskur og líkamlegt ofbeldi en dulið ofbeldi getur ásamt öðru birst í baktali, félagslegri útilokun og svokölluðu gasljósi (gaslightning). Gasljós er mjög alvarlegt andlegt ofbeldi þar sem narsissistinn ráðskast með skynjun þolandans á þann hátt að hinn síðarnefndi fer að efast um skynjun sína, minni og jafnvel geðheilsu. Þegar rætt er um narsísískt ofbeldi er mikilvægt að hafa í huga að einstaklingar með NPD eru ekki færir um að mynda heilbrigð tilfinningatengsl heldur eru einungis á höttunum eftir narsísískri athygli (narcissistic supply). Fíkn í narsísíska athygli og skortur á samúð eru meðal þátta sem valda því að misnotkun er innbyggt í hegðun þessara einstaklinga (Vaknin, 2015,  bls. 634).

Dæmi um narsísískt ofbeldi gagnvart barni er þegar það neyðist til að afsala eigin þörfum til að uppfylla þörf narsísíska foreldrisins fyrir vegsömun (Kepner, 2013, bls. 73). Þarfir foreldrisins ganga með öðrum orðum fyrir þörfum barnsins og það sem verra er: „ábyrgðin sem felst í að uppfylla þarfir færist frá foreldri yfir á barnið” (Donaldson- Pressman og Pressman, 1994, bls. 4). Eðli málsins samkvæmt skapa slík umsnúin hlutverk mikla ringulreið og vanlíðan hjá barninu og valda því oft sálrænum skaða fyrir lífstíð. Oft er annað foreldrið narsísískt en hitt meðvirkt og ytri ímynd fjölskyldunnar jafnvel mjög góð. Því skapast veruleg hætta á að enginn beri kennsl á raunverulega líðan barnsins sem sjálft hefur engar forsendur til að skilja hvað er í gangi og einangrast með sjálft sig og tilfinningar sínar. Eitt er að þarfir barns séu hunsaðar en þögn, lygar og hræsni umönnunaraðila gerir sálrænt áfall þess enn verra (Bergmann, 2004, bls.162). Afleiðingarnar eru margvíslegar, langvarandi  og alvarlegar og geta leitt til narsísísks fórnarlambsheilkennis (narcissistic victim syndrom).

Narsísískt ofbeldi á sér líka stað í samböndum meðal fullorðinna  (vina, para, hjóna, vinnufélaga, systkina o. s. frv.). Í upphafi ástarsambands við narsissista er til dæmis algengt að ákveðin hringrás fari af stað sem felst í því að fórnarlambið er hafið upp til skýjanna í byrjun sambands, tekið harkalega niður af stallinum eftir mislangan tíma og loks hafnað (Elkin, 1999, bls. 171). Þetta ferli er oft mjög sársaukafull upplifun fyrir þolendur sem fara í gegnum mikla tilfinningalega rússíbanareið. Narsissistinn tekur hins vegar yfirleitt enga ábyrgð á hegðun sinni heldur snýr sér oftast að næsta fórnarlambi og hringrásin hefst á ný. Þessi óskiljanlega, órökrétta hegðun gerir fórnarlömbin ringluð, óttaslegin og örvæntingarfull. Ofan á það bætist að oft er þeim ekki trúað ef þau leita sér hjálpar, erfitt er að sanna ofbeldið, og enginn skilur í raun og veru hvað er í gangi. Þau, eins og börn narsísískra foreldra (oft er einmitt um að ræða uppkomin börn narsísískra foreldra), einangrast því oft með vanda sinn og eru áfram útsett fyrir frekari misnotkun og endurteknum áföllum. 

Heimildir:

Bergmann, Martin S. (2004). Understanding dissidence and controversy in the history of psychoanalysis. New York: Other Press. 

Donaldson-Pressman, Stephanie og Pressman, Robert M. (1994). The narcissistic family: Diagnosis and treatment. New York:Lexington books. 

Elkin, G. David. (1999). Introduction to clinical psychiatry. Stamford, Conn: Appleton & Lange. 

Kepner, James I. (2013). Body process: A gestalt approach to working with the body in psychotherapy. New York: Routledge. 

Vaknin, Sam. (2105). Malignant self-love: Narcissism revisited. Skopje: Narcissus publications.