15. ágúst, 2019

Hvað er narsísísk athygli?

Á fyrstu árum lífsgöngunnar meðan börn eru að móta sjálfsvitund sína þurfa þau nauðsynlega athygli og örvun, í upphafi sérstaklega frá móður en síðar einnig föður. Á þessu skeiði er eðlilegt að börnunum finnist þau vera nafli alheimsins og allt eigi að snúast í kringum þau. Með heilbrigðum stuðningi og athygli frá foreldrum losna þau smám saman úr slíkri fantasíu og fá raunsærri sýn á sjálf sig og aðra. Þegar fullorðinsaldri er náð þurfa börn með slíkan bakgrunn ekki á narsísískri athygli að halda fyrir utan það sem eðlilegt getur talist og geta verið án hennar lengi án þess að það hafi áhrif á andlegt heilbrigði þeirra. Öðru máli gegnir um fullorðna einstaklinga með narsísíska persónuleikaröskun því séu þeir sviptir narsísískri athygli tærast þeir upp andlega (Kohut, 1996, bls. 37). Ástæðan er sú að þeir hafa ekki fengið heilbrigða endurgjöf í uppvextinum sem veldur því að þeir skuldbindast ídealíseraðri og þ. a. l. óraunhæfri tegund sjálfs (falskt sjálf) sem krefst narsísískrar athygli eftir að fullorðinsaldri er náð. Narsísísk athygli í slíku samhengi er skírskotun í sálfræðilegt hugtak og vísar í aðdáun og persónulegan stuðning frá umhverfinu sem narsissisti nærist á og er grundvöllur fyrir sjálfsvirðingu hans (De Canonville, 2018, bls. 85; Fenichel, 1938). Athyglin staðfestir hið svokallaða falska sjálf og verður því eins konar „fíkniefni“ narsissistans og nauðsynleg til að viðhalda hugmyndum hans um sjálfan sig. Eins og aðrir fíklar er narsissistinn óseðjandi þegar kemur að fíkninni (athyglinni) og því snýst öll hans hegðun og tilvera um að tryggja sér og laða fram narsíska athygli af ýmsu tagi. Samkvæmt Christine Louis de Canonville (2018, bls. 87) má skipta uppsprettu narsísískrar athygli í þrjú stig:  

Fyrsta stigs narsísísk athygli vísar í alla þá athygli sem fólk veitir narsissistanum stopult og tilviljanakennt. Öll athygli gildir hvort sem hún er opinberleg (t. d. frægð), persónuleg (t. d. aðdáun og skjall), bein eða óbein, jákvæð eða neikvæð (Vaknin, 2015, bls. 612). Þar sem narsissistinn getur ekki tekið þessa athygli sem sjálfsögðum hlut þarf hann oft að hafa nokkuð fyrir því að tryggja sér hana og það gerir hann til dæmis með því að hrífa fólk með sér eða ráðskast með það. Eðli málsins samkvæmt velur hann einstaklinga (mjög oft empatíska) sem eru líklegir til að veita honum narsísíska athygli  og algengt er að hann upphefji þá með þeim hætti að viðkomandi telur sig vera búið að finna einstakan sálufélaga. Ekkert er þó fjær sanni því einstaklingur með narsísíska persónuleikaröskun hvorki getur eða vill myndað eðlilegt tilfinningasamband og  er einungis á höttunum eftir narsísískri athygli. Fyrr eða síðar verður hann leiður á fórnarlambinu og fer að grafa undan því með ýmsum hætti. Fórnarlambið verður oft miður sín og fer í tilfinningalegt uppnám og er jafnvel óafvitandi að veita narsissistanum enn frekari narsísíska athygli (nú með því að láta hann stjórna líðan sinni).

Annars stigs narsísísk athygli á við fólk sem gefur narsisssistanum athygli á reglulegum grundvelli (t. d. maki, börn, stórfjölskylda og vinir) og styðja við þá ímynd að hann sé í sterkri félagslegri stöðu. Narsissistinn tekur þessum „athyglisgjöfum“ sem sjálfsögðum hlut enda hafa þeir verið vandir á og þjálfaðir í að þóknast honum um langa hríð. Börn narsissistans eru til dæmis notuð  sem uppsprettur narsísískrar athygli hver á sinn hátt. Ef  barn hefur einhverja sérstaka hæfileika sem narsissistinn telur að geti styrkt hugmyndir hans um eigin mikilmennsku og yfirburði getur slíkt barn orðið „fullkomna“ barnið í augum narsissistans sem getur ekki gert neitt rangt. Barn sem er feimið og uppburðarlítið og þorir ekki annað en að hlýða narsísíska foreldrinu í einu og öllu er uppspretta með sínum hætti því því ótti færir narsissistanum einnig narsísíka athygli. Ef barn hins vegar neitar að veita narsísíska athygli (gerir uppreisn) er því oft refsað harðlega. Slíkt barn er oft sett í  hlutverk blórabögguls, því er talið trú um að það sé gallað og skammarlegt, og það er líklegast til að vera beitt líkamlegu ofbeldi. Narsísísíska foreldrið lítur því ekki á börn sín sem sjálfstæðar persónur heldur eru þau annað hvort hluti af honum sjálfum (uppspretta narsísískrar athygli) eða svo gott sem ekki til í hans huga. Ástæðan fyrir þessari hlutgervingu er sú að í huga narsissistans eru engin mörk milli eigin sjálfs og annarra (Hotchkiss, 2003, bls. 28).   

Fyrir utan athygli frá fólki getur narsissistinn nælt sér í narsísíska athygli gegnum efnislega hluti eins og til dæmis tískufatnað, glæsileg hýbýli og hraðskreiða bíla. Einnig getur þjóðfélagsstaða hans skipt máli í þessu samhengi, staða og útlit maka, lífstíll og raunar hvaðeina sem reglulega styrkir og upphefur þá ímynd sem narsissistinn vill að aðrir hafi af sér.

Þriðja stigs narsísísk athygli er minni í sniðum en þær fyrrnefndu og vísar samkvæmt De Canonville (bls. 91) oftast í bláókunnugt fólk sem veitir narsissistanum narsísíska athygli. Einnig gæti verið um að ræða fólk sem narsissistinn hittir mjög sjaldan en er tilbúið „á hliðarlínunni“ ef svo ber undir. Ef lítið er um narsísíska athygli einhverra hluta vegna, t. d. sá sem áður veitti 1. stigs narsísíska athygli hættir því, getur þriðja stigs athyglin virkað sem eins konar „skyndifix“ því hún er að sjálfsögðu betri en engin athygli. Eins og fram kemur hjá De Canonville notar narsissistinn þessa athygli einnig til að hafa áhrif á þriðja aðila til að sýna honum fram á yfirburði sína og vinsældir. Sá einstaklingur gæti til dæmis verið fjölskyldumeðimur sem hættir að styðja við narsísíska ímynd narsissistans því hann er farinn að setja spurningarmerki við hegðun hans. Þá er gott fyrir narsissistann að skipta honum út fyrir fólk sem hann þekkir lítið sem ekkert en virðist allt í einu mjög mikilvægt í lífi hans. Þessi athygli er því hentug að ýmsu leyti því með henni tekst narsissistanum að stýra atburðarrásinni,  upphefja sjálfan sig, refsa þriðja aðila og næla sér í lágmarks athygli.

Mikilvægi fræðslu

Af framansögðu má ljóst vera að þörf narsissista í narsísíska athygli er sjúkleg og á kostnað þeirra sem veita hana. Sá kostnaður er yfirleitt andlegur skaði af einhverju tagi. Fólk sem á í nánum tengslum við narsissista er til dæmis oft óvitandi um að það er ekki í heilbrigðu sambandi heldur einungis athyglisgjafar sem skipt er út eftir hentisemi narsissistans. Því er mjög brýnt að fólk sem hefur verið í langvarandi sambandi við við slíkan einstakling (t. d. uppkomin börn hans eða makar) fræðist um narsísíska athygli, virkni hennar og áhrif. Með fræðslu verður viðkomandi meðvitaður um sinn þátt í sambandinu (t. d. þörf fyrr að gera öðrum til hæfis) sem ætti að gera honum kleift að vinna sig úr vandanum og koma þannig í veg fyrir að sagan endurteki sig.  

Heimildir:

De Canonville, Christine Louis. (2018). When shame begets shame: How the narsissist hurt and shame their victims. Sótt af https://narcissisticbehavior.net/when-shame-begets-shame/

Fenichel, Otto. (1938). „The drive to amass wealth“. Psychoanalytic quarterly. 7: 69-95.

Hotchkiss, Sandy. (2003). Why is it always about you? The seven deadly sins of narcissism. New York: Free press.

Kohut, Heinz. (1996). The Chicaco institute lectures. London: The analytic press.

Vaknin, Sam. (2015). The malignant self love: Narcissism revisited. Skopje: Narcissus publications.