7. apríl, 2019

Gasljós

Hvað er gasljós?

Hugtakið „gasljós“ kemur upphaflega frá breska leikritinu Gas Light (1938) en þekktari er þó bandaríska kvikmyndin Gaslight frá árinu 1944 sem gerð var eftir leikritinu. Kvikmyndin fjallar í stuttu máli  um eiginmann sem beitir konu sína vísvitandi blekkingum með því að dempa reglulega gasljós í húsi þeirra hjóna sem hann neitar svo að hafa gert. Markmiðið er  fá hana til að efast um skynjanir sínar, minni og geðheilsu. Gasljós er því skírskotun í mjög alvarlegt tilfinningalegt og andlegt ofbeldi og af því tagi sem einstaklingar með narsísíska persónuleikaröskun (eða skora hátt á narsísíska rófinu) beita gjarnan og það getur átt sér stað í öllum samböndum, t. d. milli hjóna, systkina, vina o. s. frv.

Einungis þarf tvo einstaklinga til að gasljós geti átt sér stað, þ. e. einn aðila sem beitir gasljósi (gasljósavald) á annan sem verður fyrir því (gasljósaþegi). Einkennandi fyrir sambandið er að gasljósavaldurinn þarf alltaf að hafa rétt fyrir sér til að halda völdum sínum og sjálfskynjun óskertu á sama tíma og gasljósaþeginn leyfir þeim fyrrnefnda að skilgreina skynjun sína á veruleikanum því hann lítur upp til hans og sækist eftir viðurkenningu hans (Stern, 2007, bls. 3). Valdaójafnvægi er því til staðar í upphafi sem gasljósavaldurinn nýtir sér með því að grafa undan sjálfstrausti gasljósaþegans sem fer smám saman að efast um skynjun sína minni, hugsanir, tilfinningar, dómgreind og jafnvel geðheilsu. Oftast er um náin tengsl að ræða og því yfirleitt mikil tregða hjá þeim síðarnefnda að sjá gasljósavaldinn í réttu ljósi og raunar má segja að slík afneitun bæði viðhaldi „gasljósasambandinu“ og sé grundvöllur þess (De Canonville, e. d).

Samkvæmt Dr. Robin Stern (2007, bls. 10-11) er um að ræða þrjú stig í gasljósaferlinu sem hvert um sig endurspegla tilfinningalegt ástand þolandans:

Stig 1. Efasemdarstigið hefst oft með litlum, lúmskum atriðum, s. s. narsissisti veitir þolanda eftirför, lítilsvirðir hann (oft undir yfirskyni húmors), baktalar hann, gefur honum rangar upplýsingar, færir eða felur hluti sem hann neitar svo að hafa gert eða ásakar þolanda skyndilega um eitthvað sem hann er alsaklaus af. Hinar „smávægilegu“ lygar og lítilsvirðingar koma þolandanum spánskt fyrir sjónir („Af hverju sagði/gerði hann þetta?“, „Ætli ég hafi misskilið eitthvað“?, „Er ég að gera of mikið úr þessu?“). Þolandinn hefur sterkt á tilfinningunni að hann sé undir andlegri árás en á að sama skapi erfitt með að trúa því. Hann er einnig í vanda því erfitt er að festa fingur á nákvæmlega í hverju árásin liggur auk þess sem atvikin virðast léttvæg. Oft hefur þolandinn jafnvel verið „ídealíseraður“ af narsissistanum og þeir kannski þekkst árum saman sem gerir hann enn ringlaðari og óöruggari. Efasemdirnar og óöryggið geta einnig valdið honum ótta sem er sérstakur að því leyti að hann beinist ekki að neinu skilgreindu eða áreifanlegu heldur fremur hinu ókomna, óþekkta og óútreiknanlega (Vaknin, 2015, bls. 641).

Stig 2. Á varnarstiginu hefur þolandinn enn nægilegt sjálfstraust til að fylgja hugboði sínu og  fer ósjálfrátt að verja sig. Hann reynir oft að fá narsissistann til skilja sína hlið bæði vegna þess að hann heldur enn í vonina um að öðlast samþykki hans og eins til að fá staðfestingu á að skynjun hans sé rétt (t. d. að hann sé raunverulega lítilsvirtur). Stundum tjáir þolandinn sig lítið framan af en svo gerist eitthvað í gasljósinu sem veldur því að hann finnur sig knúinn til að ganga á narsissistann og láta hann svara fyrir hegðun sína. Hvaða aðferð sem þolandinn notar til að verja sig er hann ómeðvitaður um að hann er að glíma við einstakling með persónuleikaröskun og veit því ekki að það er borin von að sá hinn sami taki ábyrgð á hegðun sinni. Algeng viðbrögð narsissista við „kvörtunum“ þolenda er að neita blákalt ásökunum, leika fórnarlamb (t. d. fara að gráta), ásaka þolanda um að hann sé „of viðkvæmur“ (gera þar með lítið úr upplifun hans), snúa út úr og afbaka orð þolandans eða hreinlega kenna honum um. Á þessu stigi velur þolandinn annað hvort að trúa narsissistanum og hafna eigin upplifunum eða „gríman fellur“, þ. e. hann áttar sig á að narsissistinn er ekki sú persóna sem hann hélt hann vera (sem getur verið mjög sársaukafull upplifun en er það allra besta sem getur gerst þegar til lengri tíma er litið) og nær að stöðva gasljósið áður en stig þrjú hefst.

Stig 3. Á þunglyndisstiginu fer þolandinn að trúa því að hann sé ímyndunarveikur, of viðkvæmur, haldinn rangskynjunum eða genginn af vitinu. Hann getur fyllst vonleysi og depurð, finnst hann ekki geta gert neitt rétt og verður oft mjög háður narsissistanum hvað varðar skynjun og túlkun á veruleikanum. Þolandinn hefur sannfært sig um að narsissistinn hafi eftir allt saman haft á réttu að standa og vonast þar með til að öðlast hið þráða samþykki hans. Hann hefur með öðrum orðum gengist við þeirri blekkingu að sá síðarnefndi hafi alltaf rétt fyrir sér og báðir eru nú fastir í þeirri tálsýn. Sannleikurinn er hins vegar sá að narsissistinn hefur náð stjórn á huga og sálarlífi þolandans og rænt hann það sem flestum okkar er kærast, þ. e. sjálfstrausti, sjálfstæðri hugsun og heilbrigðri sjálfsvitund (De Canonville, 2018: bls. 11).

Gott er að hafa í huga að gasljósi er ekki alltaf beitt með kerfisbundnum hætti eins og hér hefur verið lýst. Dæmi um ómeðvitað og tilviljanakennt gasljós getur til dæmis verið stálpað barn sem á narsísískan föður og skynjar sterklega að hann skeytir engu um velferð þess. Barnið ákveður að trúa móður sinni (sem ekki er narsísísk) frá þessari ályktun og neikvæðum tilfinningum í garð föðurins (m. a. til að fá staðfestingu á að skynjunin sé rétt). Ef móðirin bregst ókvæða við eða fegrar skeytingarleysi föðursins er hún að senda barninu þau skilaboð að tilfinningar þess og upplifanir séu ekki réttmætar og jafnvel skammarlegar. Afneitun er oftast djúp, ómeðvituð vörn gegn ógnandi staðreyndum og óþægilegum sannleika um eigið sjálf (Brown, 2008, bls 104) sem í þessu tilviki kemur í veg fyrir að móðirin beri kennsl á líðan og tilfinningar barnsins. Í slíkum sálrænum aðstæðum er langlíklegast að barnið taki afstöðu móðurinnar góða og gilda og fari líkt og önnur fórnarlömb gasljóss að efast um skynjanir sínar, tilfinningar, hugsanir og innsæi.

Áhrif

Áhrif gasljóss á sálarlíf einstaklinga geta verið geigvænleg. Þolendur gasljóss geta meðal annars upplifað skömm, ótta, kvíða, einmanaleika, einangrun, þunglyndi, vonleysi og áfallastreituröskun auk þess sem þeir eru rændir heiðri og tilfinningalegu öryggi. Jafnvel þó svo að þolandi sjái að hluta til í gegnum gasljósið og búi ekki undir sama þaki og sá sem beitir því getur staðan verið mjög snúin og erfitt að „fara“. Ef gasljós á sér til dæmis stað innan stórfjölskyldu er mjög ólíklegt að þolandinn geti leitað stuðnings annarra fjölskyldumeðlima enda engin sönnunargögn til eða skilningur fyrir hendi. Sá sem beitir gasljósi hefur einnig oft einstakt lag á að ná fólki á sitt band sem veldur því að þolandinn einangrast enn frekar. Ekki síst af þessum sökum er gasljós svo hættulegt og alvarlegt því það grefur undan andlegu jafnvægi, er með afbrigðum lúmskt, fer auðveldlega fram hjá fólki, og þegar verst lætur þolandanum sjálfum.

Bati

Til að þolendur gasljóss geti hafið bataferil er lykilatriði að þeir fái fræðslu um eðli og afleiðingar gasljóss bæði til að þeir skilji upplifun sína og eins til að koma í veg fyrir að verða þolendur á ný. Einnig getur gagnast að fá aðstoð hjá til dæmis ráðgjafa eða sálfræðing en þá er mjög mikilvægt að slíkur aðili sé meðvitaður um hversu djúpstæð og alvarleg áhrif gasljóss geta verið. Þolandi gasljóss sem leitar sér hjálpar má alls ekki við því að honum sé mætt með  skilningsleysi eða að að lítið sé gert úr reynslu hans (gaslýstur á ný). Þvert á móti þarf hann á tilfinningalegu öruggu umhverfi að halda þar sem honum er mætt með skilningi, nærgætni virðingu og samkennd. Einnig þarf að fullvissa þolandann um að upplifun hans hafi verið fullkomlega gild og að hann sé ekki ábyrgur fyrir gasljósinu. Með fræðslu og stuðningi fer hann að sjá hlutina í réttu ljósi og fær nýja og raunhæfa sýn bæði á sjálfan sig og gerandann.  Oftast er það þolandanum mikið áfall að uppgötva að hann hafi verið beittur blekkingum og hann þarf því að læra að treysta á ný, bæði öðru fólki, en einnig og ekki síður sjálfum sér og eigin dómgreind (Simon, 2010, bls. 137). Þolendur alvarlegs gasljóss framselja (ómeðvitað) vald sitt og það er einmitt þetta vald og heilbrigð tengsl við veruleikann sem þeir þurfa að endurheimta og halda fast í það sem eftir er.

Nokkrar algengar vísbendingar um að einstaklingur sé beittur gasljósi

Viðkomandi þarf að endurhugsa allt áður en hann talar og framkvæmir, finnst hann stöðugt þurfa að biðjast afsökunar, á í erfiðleikum með að taka jafnvel einföldustu ákvarðanir, upplifir sig aldrei nógu góðan (sem maka, systkini, félaga o. s. frv.) og er stöðugt að hugsa um hvort það geti verið að hann sé of viðkvæmur eða jafnvel búinn að tapa vitinu.

Heimildir:

Brown, Nina W. (2008). Children of the self absorbed: A grown up‘s guide to getting over narcissistc parents. New harbinger publications.

De Canonville, Christine Louis. (e. d.). The effect of gaslightning in narcissistic victim syndrom. Sótt 15. 02. 2019 af https://narcissisticbehavior.net/the-effects-of-gaslighting-in-narcissistic-victim-syndrome/

De Canonville, Christine Louis. (2018). When shame begets shame: How the narsissist hurt and shame their victims. Sótt af https://narcissisticbehavior.net/when-shame-begets-shame/

Simon, George K. (2010). In sheeps clothing: Understanding and dealing with manipulative people. Parkhurst brothers publishers.

Stern, Robin. (2007). The gaslight effect: How to spot and survive the hidden manipulation other people use to control your life. New York: Morgan road books.

Vaknin, Sam. (2015). Malignant self-love: narcissism revisited. Skopje: Narcissus publications.