Sálarinnsýn er hugsuð fyrir uppkomin börn narsísískra foreldra og aðra sem hafa upplifað langvarandi narsísíska misnotkun.
Er narsissisti í þínu lífi?
Eitt mikilvægt skref í bataferli þolenda er að fræðast um narsísíska (sjálfsdýrkunar) persónuleikaröskun (narcissistic personality disorder, sk.st. NPD) því hún gerir þá meðvitaða um öflin sem stýra hegðun narsissistans (sem annað hvort er með fulla röskun eða sýnir sterk narsísísk einkenni) og um viðbrögð þeirra sjálfra við henni.
Samkvæmt greiningarkerfi bandarískra geðlækna (DSM -V) sýnir einstaklingur með NPD sum eða öll neðangreind einkenni:
- Mikilmennska og væntir betri meðferðar en aðrir
- Er upptekinn af draumórum um völd, velgengni, gáfnafar, útlit o. s. frv.
- Skynjar sig einstakan, æðri öðrum og skipar sér í flokk með hátt settu fólki og stofnunum
- Þarfnast stöðugrar aðdáunar frá öðrum
- Finnst hann eiga rétt á sérmeðferð frá öðrum og að aðrir hlýði sér
- Notfærir sér aðra í eigin hagnaðarskyni
- Ófús til að setja sig í spor annarra varðandi tilfinningar, óskir og þarfir
- Öfundar aðra mjög mikið og heldur að aðrir öfundi sig á sama hátt
- Hrokafullur og merkilegur með sig
Ekki er nákvæmlega vitað hvaða orsakar NPD en talið er að vanræksla, ofdekur, höfnun, ósamræmi í uppeldisreglum og fleiri þættir geti haft áhrif. Röskunin er á rófi sem þýðir að hún getur birst frá því að vera tiltölulega mild narsísísk hegðun yfir í algera siðblindu. Hún getur einnig skarast við aðrar skyldar raskanir sem tilheyra svokölluðum B klasa (dramatíski klasinn). Hægt er að finna tonn af upplýsingum á netinu sem eru að vísu misgóðar en gott er að afla sér þekkingar sem víðast.
Varst þú alin(n) upp á narsísísku heimili?
Nokkur atriði sem einkenna narsísískt uppeldi (alla vega annað foreldri er narsísískt):
- Var foreldri á heimilinu tilfinningalega fjarlægt eða hafnaði þér tilfinningalega?
- Varst þú látin mæta tilfinningalegum þörfum foreldrisins (en ekki öfugt)?
- Beitti það annars konar ofbeldi, s. s. líkamlegu eða kynferðislegu?
- Er eða var foreldrið í samkeppni við þig?
- Var „tiplað á tánum” í kringum foreldrið?
- Ólst þú upp í systkinahóp þar sem allir höfðu ákveðið hlutverk, s. s. uppáhaldsbarnið, trúðurinn, týnda barnið og svarti sauðurinn?
- Voru persónuleg mörk þín ekki virt?
- Var ímyndin út á við mikilvægari en líðan heimilisfólks?
- Var ósamræmi í reglum heimilisins og þær óréttlátar?
Berð þú ör á sálinni eftir narsísíska misnotkun?
Nokkur algeng einkenni hjá uppkomnum börnum narsísískra foreldra (getur einnig átt við aðra sem hafa upplifað langvarandi narsísíska misnotkun):
- Dreymir þig um að foreldri þitt (eða t. d. maki ) muni einn góðan veðurdag sjá að sér og breytast?
- Líður þér stundum eins og hjálparvani barni (til dæmis í návist narsíska foreldrisins)?
- Ertu ofurviðkvæm(ur) fyrir gagnrýni, jafnvel uppbyggilegri?
- Ertu kvíðin(n), félagsfælin(n) eða með lélegt sjálfstraust en veist ekki af hverju?
- Finnurðu oft fyrir þunglyndi, hjálparleysi, vonleysi eða jafnvel ofsahræðslu?
- Finnurðu til skammar ef þú ert ekki fullkominn?
- Ertu ómeðvitað að leita eftir samþykki, viðurkenningu og ást annarra?
- Finnurðu stundum fyrir ólýsanlegum, óútskýranlegum tómleika?
- Færðu grátköst af engu sýnilegu tilefni?
- Bregður þér auðveldlega?
- Áttu erfitt með að mynda augnsamband við aðra?
- Finnst þér þú óljóst vita að eitthvað er að en getur ekki orðað þá tilfinningu eða útskýrt með nægilega skýrum hætti?
- Hefur þú leitað þér hjálpar en aldrei fundist þú fá fullnægjandi skýringu á líðan þinni?
- Finnurðu fyrir óútskýrðum líkamlegum einkennum s. s. langvarandi vöðvaspennu, þrálátum höfuðverk eða meltingartruflunum?
Fyrirvari: Allt sem kemur fram á heimasíðunni er einungis hugsað sem almenn fræðsla og er á engan hátt ætlað að koma í staðinn fyrir samtalsmeðferð eða ráðgjöf af neinu tagi. Allar læknisfræðilegar greiningar eru einungis á færi þar til bærra sérfæðinga.